miðvikudagur, 10. desember 2008

Loksins loksins...

Jæja dúllurnar mínar. Þá er loksins komið að nýrri færzlu, næstum hálfu ári síðan síðasta færzla leit dagsins ljós.

Það sem á daga mína hefur drifið er svosem ekki ýkja mikið. Ég hef komið mér vel fyrir í vinnunni hjá ÍSOR og fór í borholumælingar eins og bavíani í sumar og haust, vakt eftir vakt. Það gaf vel í aðra hönd, en var svolítið lýjandi til lengdar. Nú er svo komið að borarnir eru meira og minna stopp og því eru engar vaktir eins sem stendur. Ekki er útlit fyrir að það verði neinar vaktir fyrr en í apríl. Þá skapazt upplagt tækifæri til að taka til innanhúss og vinna verkefni sem hafa setið á hakanum sökum anna í borholumælingum. Ég verð einn aðalmaðurinn í teymi sem á að taka gagna- og gæðamálin föstum tökum og verður gaman að takast á við það.

Ég fór til Tenerife fyrri hluta nóvember og var í 3 vikur í sólskini, hita og ódýru víni... Það var indælt og varð ég meira að segja brúnn og sætur - eh, alla vega brúnn... Eftir því sem júgrið hækkaði gagnvart krónu, lokaði ég veskinu smátt og smátt og kom með yfir 1.500 júgur til baka. Ég ætla að geyma þau vel og selja þegar krónan lækkar aftur niður fyrir allar hellur...

Ég tók ákvörðun um að gera upp bílskúrinn og skipta um á þökum eftir áramótin og leigja svo skúrinn út. Það verður gott og ætla ég að láta hann borga niður húsnæðislánið smátt og smátt. Mér reiknast svo til að það muni taka um 11 ár að borga það niður og þá á ég allt skuldlaust!

Knús og kossar, SV

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Voruð þið að bíða?

Á vordögum lofaði ég að vera latur að blogga og hef svo sannarlega staðið við það.

Síðan þá hefur þó nokkuð gerzt:

Ég fékk vinnu hjá ÍSOR, sem er stytting á íslenzkum orkurannsóknum. Það er sumsé jarðhitarannsóknarhluti Orkustofnunar sem var slitinn frá téðri stofnun árið 2003. Þar fékk ég vinnu sem mælingamaður, auk þess sem ég verð eitthvað notaður við að vesenast í forritun, aðallega varðandi gagnagrunna og þess háttar. Þetta er voðalega spennandi allt saman og verður gaman að læra á þetta allt í fyllingu tímans.

Síðan ég fékk þessa vinnu hef ég varla mátt vera að því að gera mikið nema vinna, éta og sofa, þó lítið hafi farið fyrir því síðastnefnda, allavega í júlímánuði.

Ég fæ nýja leigendur í litla, gula hænuhúsið mitt á Hnakkabæli, ég meina Selfossi. Fyrst mun ég þó þurfa að láta skipta um járn, pappa og jafnvel einhver borð á þakinu, því það er orðið anzi lélegt. Einnig ætla ég að láta skipta um þakjárn og pappa á bílskúrnum. Svo áætla ég að dunda mér við það í vetur að einangra skúrinn og innrétta hann sem stúdíóíbúð og leigja út, nema ég búi þar sjálfur. Hver veit? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Meira síðar. Bless, elskurnar!

Aðalönd

mánudagur, 26. maí 2008

Leti

Ég hef ekki verið duglegur að setja inn færzlur hér, en það stendur til bóta. Ég er hættur að skrifa á moggabloggið af þeirri ástæðu að mér finnst ekki hægt að selja auglýsingar við vefbók venjulegs fólks úti í bæ. Jú, þetta er vízt ókeypis, en það er bloggspottinn líka og ekki auglýsa þeir svona!

Fyrir þá sem ekki vita, var mér sagt upp hjá Símanum fyrir 1. maí og hef ég verið í atvinnuleit síðan. Ég var búinn að fara í eitt viðtal og var býsna heitur fyrir því starfi, en skyndilega var hætt við að ráða og staðan sett í salt, a.m.k. fram að hausti.

Nokkrir vinir og kunningjar hafa hvatt mig til að sækja um í þeirra fyrirtækjum og virðist vanta tölvunarfræðinga víða, þrátt fyrir bölsbænir úti um allan bæ.

Ég er með eitt járn í eldinum sem ég ætla að klára áður en ég fer að sækja um annars staðar. Meira um það síðar.

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Ekki mikið merkilegt að gerast...

Þessa dagana er svosem lítið um að vera. Bara vinna, éta og sofa. Var í fríi á föstudaginn var og verð í fríi á föstudaginn kemur.

Sumarfríið verður ekki tekið fyrr en í október-nóvember. Það er jafnvel spurning um að ég kíki með Dóru til Nýja-Sjálands. Það er þó ekki á hreinu ennþá. Mikið væri það nú samt gaman...

Jú, langamma í Merkinesi hefði orðið 102 ára í dag, hefði hún lifað.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Bálreiður!

Hvað er að? Google teymið hélt að ég væri að búa til eitthvað spamblogg og lokaði á það í 4 daga. Sendi mér póst um að ég ætti að senda þeim póst með einhverri staðfestingu á að ég væri raunveruleg manneskja.

Svo senda þeir mér engan póst þegar þeir eru svo loxins búnir að opna! Hvað er það?!

Öss...

mánudagur, 31. mars 2008

Taka 1

Ég ákvað að yfirgefa moggabloggið (nema ég nota það til að rífast við moggabloggara...) og fá mér pláss hjá Google. Það er gott.

Ég lofa að vera latur að blogga, vegna þess að það er tímaeyðsla. Ég mun þó líklega setja inn einhverjar fréttir af mér af og til.

Skál!