mánudagur, 28. september 2009

Brugg, brugg, brugg

Jæja, þá eru margar laganir farnar í mallakútinn og eru fleiri á næstunni.

Við Hallur pöntuðum 10 bjórkit frá Midwestsupplies (vonandi ekki japanskt supplies...) og verður gaman að brugga það og drekka. Meðal annars er þar að finna jólabjór, allskyns stout, hafraporter og fleira. Trappist var líka með í för.

Þegar Hjölli, vinur Halls og fiðluleikari, verður búinn að taka til í bílskúrnum sínum, þá förum við kannske í all-grain, ásamt Gissuri Páli stórsöngvara.

Ég er svo að fara í ferðalag með Friðgeiri, vinnufélaga mínum, um mið-Evrópu. Við fljúgum til Frankfurt og förum þaðan suður á bóginn um bæi suður-Þýzkalands og áfram til Sviss, en við áætlum að gista a.m.k. í Luzern. Þaðan er förinni heitið til Ítalíu, n.t.t. Mílanó og þar drekkum við í okkur menningu Ítala. Norðurförin fer svo um Ítalíu, Innsbruck í Austurríki og svo aftur til Hamborgar, en þar á amma Friðgeirs heima. Eftir nótt þar, munum við svo fara aftur til Frankfurt og heim.

Í nóvember ætla ég svo að skreppa til Thailands og slaka á í 4 vikur og láta nudda mig, milli þess sem ég ligg í sólbaði og drekk bjór...

Knús!

mánudagur, 29. júní 2009

Meira af bruggun

Jæja, þá er þetta hafið.

Ég lagði í 11. júní í Octane Indian Pale Ale, sem er fremur ,,humlaður" bjór, þ.e. að humlarnir eru sterkir í honum. Aðrir bjórar geta verið t.d. ,,maltaðri". Aðrar tegundir sem ég pantaði voru Honey Weizen, sem er hunangs-hveitibjór, Honey bee ale, sem er hunangsöl (ekki hveiti) og svo að lokum Noble Trappist, sem er bjór, bruggaður eftir belgískri hefð, með belgískum kandís. Mjög spennandi allt saman!

Við Hallur vinur minn ákváðum að rotta okkur saman í þessu, þannig að við skiptum öllu niður 50/50. Næst ætlum við að athuga með stout-bjór og hveitibjór (dökkan), ásamt einhverju fleiru...

Nú er IPA-bjórinn í seinni gerjun, meðan Trappist-bjórinn er í fyrri gerjun. Næst verður Honey Weizen settur í tunnuna.

Meira síðar. Kveðja, Sjonni

laugardagur, 4. apríl 2009

Ölgerðin

Halló dúllurnar mínar og vonandi leiddist ykkur ekki biðin.

Ég hef ákveðið að hella mér út í bjórgerð. Ég hef í því skyni sett mig í samband við nokkra bjórbruggandi jeppa sem kunna tökin á þessari skemmtilegu fræði sem ölbruggun er. Jafnvel að ég komist í hópinn og geti lagt eitthvað til málanna. Jibbý!

Ég segi ykkur nánar af þessu síðar, þegar meira hefur gerzt.

Annars sama af mér að frétta. Sofa, vinna, éta, hlæja, glápa, sofa, éta og sofa.

L8er...