laugardagur, 17. júlí 2010

Jæja

Sko, það hefur ekkert mikið gerst.

Ég fékk fastan samning hjá ÍSOR og það er gott.

Ég ætla ekki að breyta því meðan mér finnst gaman að vinna þar, eins og áður sagði.

Bruggið hefur látið sitja á hakanum...

Kveðja í bili.

(Les þetta e-r...)

mánudagur, 28. september 2009

Brugg, brugg, brugg

Jæja, þá eru margar laganir farnar í mallakútinn og eru fleiri á næstunni.

Við Hallur pöntuðum 10 bjórkit frá Midwestsupplies (vonandi ekki japanskt supplies...) og verður gaman að brugga það og drekka. Meðal annars er þar að finna jólabjór, allskyns stout, hafraporter og fleira. Trappist var líka með í för.

Þegar Hjölli, vinur Halls og fiðluleikari, verður búinn að taka til í bílskúrnum sínum, þá förum við kannske í all-grain, ásamt Gissuri Páli stórsöngvara.

Ég er svo að fara í ferðalag með Friðgeiri, vinnufélaga mínum, um mið-Evrópu. Við fljúgum til Frankfurt og förum þaðan suður á bóginn um bæi suður-Þýzkalands og áfram til Sviss, en við áætlum að gista a.m.k. í Luzern. Þaðan er förinni heitið til Ítalíu, n.t.t. Mílanó og þar drekkum við í okkur menningu Ítala. Norðurförin fer svo um Ítalíu, Innsbruck í Austurríki og svo aftur til Hamborgar, en þar á amma Friðgeirs heima. Eftir nótt þar, munum við svo fara aftur til Frankfurt og heim.

Í nóvember ætla ég svo að skreppa til Thailands og slaka á í 4 vikur og láta nudda mig, milli þess sem ég ligg í sólbaði og drekk bjór...

Knús!

mánudagur, 29. júní 2009

Meira af bruggun

Jæja, þá er þetta hafið.

Ég lagði í 11. júní í Octane Indian Pale Ale, sem er fremur ,,humlaður" bjór, þ.e. að humlarnir eru sterkir í honum. Aðrir bjórar geta verið t.d. ,,maltaðri". Aðrar tegundir sem ég pantaði voru Honey Weizen, sem er hunangs-hveitibjór, Honey bee ale, sem er hunangsöl (ekki hveiti) og svo að lokum Noble Trappist, sem er bjór, bruggaður eftir belgískri hefð, með belgískum kandís. Mjög spennandi allt saman!

Við Hallur vinur minn ákváðum að rotta okkur saman í þessu, þannig að við skiptum öllu niður 50/50. Næst ætlum við að athuga með stout-bjór og hveitibjór (dökkan), ásamt einhverju fleiru...

Nú er IPA-bjórinn í seinni gerjun, meðan Trappist-bjórinn er í fyrri gerjun. Næst verður Honey Weizen settur í tunnuna.

Meira síðar. Kveðja, Sjonni

laugardagur, 4. apríl 2009

Ölgerðin

Halló dúllurnar mínar og vonandi leiddist ykkur ekki biðin.

Ég hef ákveðið að hella mér út í bjórgerð. Ég hef í því skyni sett mig í samband við nokkra bjórbruggandi jeppa sem kunna tökin á þessari skemmtilegu fræði sem ölbruggun er. Jafnvel að ég komist í hópinn og geti lagt eitthvað til málanna. Jibbý!

Ég segi ykkur nánar af þessu síðar, þegar meira hefur gerzt.

Annars sama af mér að frétta. Sofa, vinna, éta, hlæja, glápa, sofa, éta og sofa.

L8er...

miðvikudagur, 10. desember 2008

Loksins loksins...

Jæja dúllurnar mínar. Þá er loksins komið að nýrri færzlu, næstum hálfu ári síðan síðasta færzla leit dagsins ljós.

Það sem á daga mína hefur drifið er svosem ekki ýkja mikið. Ég hef komið mér vel fyrir í vinnunni hjá ÍSOR og fór í borholumælingar eins og bavíani í sumar og haust, vakt eftir vakt. Það gaf vel í aðra hönd, en var svolítið lýjandi til lengdar. Nú er svo komið að borarnir eru meira og minna stopp og því eru engar vaktir eins sem stendur. Ekki er útlit fyrir að það verði neinar vaktir fyrr en í apríl. Þá skapazt upplagt tækifæri til að taka til innanhúss og vinna verkefni sem hafa setið á hakanum sökum anna í borholumælingum. Ég verð einn aðalmaðurinn í teymi sem á að taka gagna- og gæðamálin föstum tökum og verður gaman að takast á við það.

Ég fór til Tenerife fyrri hluta nóvember og var í 3 vikur í sólskini, hita og ódýru víni... Það var indælt og varð ég meira að segja brúnn og sætur - eh, alla vega brúnn... Eftir því sem júgrið hækkaði gagnvart krónu, lokaði ég veskinu smátt og smátt og kom með yfir 1.500 júgur til baka. Ég ætla að geyma þau vel og selja þegar krónan lækkar aftur niður fyrir allar hellur...

Ég tók ákvörðun um að gera upp bílskúrinn og skipta um á þökum eftir áramótin og leigja svo skúrinn út. Það verður gott og ætla ég að láta hann borga niður húsnæðislánið smátt og smátt. Mér reiknast svo til að það muni taka um 11 ár að borga það niður og þá á ég allt skuldlaust!

Knús og kossar, SV

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Voruð þið að bíða?

Á vordögum lofaði ég að vera latur að blogga og hef svo sannarlega staðið við það.

Síðan þá hefur þó nokkuð gerzt:

Ég fékk vinnu hjá ÍSOR, sem er stytting á íslenzkum orkurannsóknum. Það er sumsé jarðhitarannsóknarhluti Orkustofnunar sem var slitinn frá téðri stofnun árið 2003. Þar fékk ég vinnu sem mælingamaður, auk þess sem ég verð eitthvað notaður við að vesenast í forritun, aðallega varðandi gagnagrunna og þess háttar. Þetta er voðalega spennandi allt saman og verður gaman að læra á þetta allt í fyllingu tímans.

Síðan ég fékk þessa vinnu hef ég varla mátt vera að því að gera mikið nema vinna, éta og sofa, þó lítið hafi farið fyrir því síðastnefnda, allavega í júlímánuði.

Ég fæ nýja leigendur í litla, gula hænuhúsið mitt á Hnakkabæli, ég meina Selfossi. Fyrst mun ég þó þurfa að láta skipta um járn, pappa og jafnvel einhver borð á þakinu, því það er orðið anzi lélegt. Einnig ætla ég að láta skipta um þakjárn og pappa á bílskúrnum. Svo áætla ég að dunda mér við það í vetur að einangra skúrinn og innrétta hann sem stúdíóíbúð og leigja út, nema ég búi þar sjálfur. Hver veit? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Meira síðar. Bless, elskurnar!

Aðalönd

mánudagur, 26. maí 2008

Leti

Ég hef ekki verið duglegur að setja inn færzlur hér, en það stendur til bóta. Ég er hættur að skrifa á moggabloggið af þeirri ástæðu að mér finnst ekki hægt að selja auglýsingar við vefbók venjulegs fólks úti í bæ. Jú, þetta er vízt ókeypis, en það er bloggspottinn líka og ekki auglýsa þeir svona!

Fyrir þá sem ekki vita, var mér sagt upp hjá Símanum fyrir 1. maí og hef ég verið í atvinnuleit síðan. Ég var búinn að fara í eitt viðtal og var býsna heitur fyrir því starfi, en skyndilega var hætt við að ráða og staðan sett í salt, a.m.k. fram að hausti.

Nokkrir vinir og kunningjar hafa hvatt mig til að sækja um í þeirra fyrirtækjum og virðist vanta tölvunarfræðinga víða, þrátt fyrir bölsbænir úti um allan bæ.

Ég er með eitt járn í eldinum sem ég ætla að klára áður en ég fer að sækja um annars staðar. Meira um það síðar.